
09/06/2025
Blogg
Viðburður: Bjartsýni ríkir um framtíð heilbrigðistækni á Íslandi
Helix hélt á dögunum viðburð í Hannesarholti þar sem fjallað var um stöðu og þróun heilbrigðistækni á Íslandi. Á dagskrá voru fjölbreytt erindi frá leiðandi sérfræðingum og frumkvöðlum á sviði heilbrigðistækni sem deildu innsýn sinni og reynslu með gestum. Þau ræddu m.a. um árangur sem þegar hefur náðst með innleiðingu hugbúnaðarlausna í heilbrigðiskerfinu og hvar helstu tækifæri framtíðarinnar liggja.
Reynslusögur frá íslenskum heilbrigðistæknifyrirtækjum
Jón Magnús Kristjánsson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, opnaði viðburðinn og sagði frá sýn ráðuneytisins á sviði heilbrigðistæknimála og verkefnum framundan.

Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch frá Fönn Consulting kynnti niðurstöður nýrrar greiningar á stöðu heilbrigðis- og lífvísindageirans á Íslandi. Í erindi sínu lagði hún áherslu á mikilvægi þess að skapa stuðningsumhverfi fyrir áframhaldandi þróun og nýsköpun í geiranum.

Hulda Hallgrímsdóttir framkvæmdastjóri Nox Medical/Nox Health sagði frá alþjóðlegri vegferð Nox og lýsti hvernig vottuð stafræn meðferðarúrræði eru að gegna sífellt stærra hlutverki í svefnmeðferð á heimsvísu.

Kjartan Þórsson, stofnandi Prescriby deildi reynslusögu fyrirtækisins sem hefur þróað lausnir sem leysa alvarleg klínísk vandamál innan heilbrigðiskerfisins.

Einar Geirsson, forstöðumaður nýsköpunar hjá Helix ræddi síðan að lokum um mikilvægi þess að endurhugsa fyrirkomulag tímabókana í íslenska heilbrigðiskerfinu. Hann sagði slíkar breytingar geta valdeflt sjúklinga til að taka virkari þátt í eigin meðferð.

Skýr framtíðarsýn og áskoranir
Arna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Helix, ávarpaði gesti við upphaf fundar.
Það er ljóst að heilbrigðistækni á Íslandi er svo sannarlega í vexti og við getum verið stolt af þeirri grósku sem á sér stað hér. Við höfum náð langt með þeim fjölmörgu lausnum sem hafa þróast hér og við getum verið bjartsýn fyrir því að byggja upp heilbrigðiskerfi framtíðarinnar.
Arna Harðardóttir
Forstjóri Helix
Erla Tinna Stefánsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði Samtaka iðnaðarins, stýrði fundinum og ræddi um þróun heilbrigðistæknimála og stefnu stjórnvalda við lok fundar.

Það hefur skort heildstæða stefnumörkun fyrir atvinnugreinina. Við höfum kallað eftir því við stjórnvöld að mótuð verði skýr stefna um hvernig megi nýta þá þekkingu og hugvit sem hefur orðið til hér á landi í ört vaxandi heilbrigðistækniiðnaði.
Erla Tinna Stefánsdóttir
Viðskiptstjóri á iðnaðar- og hugverkasviði Samtaka iðnaðarins




















Deildu gleðinni