
27/03/2024
Blogg
Hvernig getur tækni haft áhrif á störf hjúkrunarfræðinga?
Henný Björk Birgisdóttir, hjúkrunarfræðingur og mastersnemi í Digital Health við HR hefur síðustu mánuði verið í starfsnámi hjá Helix. Hennar verkefni hefur verið að skoða hvernig Iðunn smáforrit er raunverulega að koma til móts við þann mönnunarvanda sem hjúkrunarheimili standa frammi fyrir í dag. Eftirfarandi pistill er unninn úr skýrslu sem hún vann á starfsnámstíð sinni hjá Helix.
Breytt aldurssamsetning þjóðar áskorun
Fólki á Íslandi fjölgar og aldurssamsetning samfélagsins er að breytast. En hvað felur það í sér fyrir heilbrigðiskerfið? Spár gera ráð fyrir að hlutfall fólks 67 ára og eldri á Íslandi verði 19,2% árið 2040 en til samanburðar var hlutfallið 12.4% árið 2020 (Stjórnarráð Íslands, 2023). Ef áætlað er að sami hlutfallslegi fjöldi þurfi á hjúkrunarheimili að halda mun rýmum þurfa að fjölga um 50%, en það samsvarar því að byggja eitt hjúkrunarheimili með 94 rýmum árlega til ársins 2040 (Stjórnarráð Íslands, 2023).
Ekki nóg að byggja
Byggingar duga skammt ef mönnunarvandi hjúkrunarheimila heldur áfram sem horfir. Embætti Landlæknis gaf út viðmið fyrir mönnun á hjúkrunarheimilum árið 2015, þar sem fram kemur hve marga faglærða þurfi í umönnun til að tryggja gæði við umönnun og öryggi íbúa þeirra (Embætti Landlæknis, 2015). Greining á rekstri hjúkrunarheimilanna leiddi í ljós að enn er töluvert langt í land til þess að lágmarksviðmiðum mönnunar náist, en skv. Embætti landlæknis þyrfti að tvöfalda mannskapinn (Stjórnarráð Íslands, 2021).
Fagfólk fyrir framan tölvur
Rannsóknir sýna að eftir því sem fagfólki fækkar vegnar íbúunum verr og niðurstöður úr RAI mati hjúkrunarheimila á Íslandi styðja þær niðurstöður (Stjórnarráð Íslands, 2021).

Þá mætti spyrja sig hvernig nýtingin á þessum fámenna faghópi er raunverulega.
Þegar rafræn sjúkraskrá var tekin upp á Íslandi varð aukin áhersla sett á skráningar og skráningarskylda formlega sett í lög. Ef verkþáttur er ekki skráður á að gera ráð fyrir því að hann hafi ekki verið framkvæmdur. Aukin rafræn skráning er alla jafna jákvæð þróun, en hún hefur verið dýrkeypt og erlendar rannsóknir sýna að tími við hjúkrunarskráningar jókst að meðaltali um 22% eftir innleiðingu á rafrænum sjúkraskrám, sem þýðir að skráningartími er nú um það bil 35% af vakttíma hjúkrunarfræðinga. Það er þó ekki eina vinnan sem unnin er við tölvu og má áætla að heildar tölvuvinna hjúkrunarfræðinga sé í raun 50-90% af vaktinni (Moore et al, 2020).
Tækni sem dreifir skráningarálagi
Stór hluti starfsmanna á hjúkrunarheimilunum eru ófaglærðir einstaklingar eða 66% skv. nýjustu tölum frá Samtökum félaga í velferðarþjónustu (Karl Sigurðsson, munnleg heimild, 13. febrúar 2024). Til þess að koma til móts við mönnunarvanda á fagfólki hafa nokkur hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu innleitt smáforritið Iðunni. Megin markmiðið með Iðunni er að efla alla starfsmenn sem sinna umönnun til skráningar, dreifa álaginu og létta skáningarbyrði faglærðra starfsmanna.
Hvernig hefur Iðunn áhrif á vinnu hjúkrunarfræðinga?
Henný gerði könnun á þremur hjúkrunarheimilum þar sem innleiðingarferli Iðunnar voru komin vel á veg. Markmið hennar var að kanna hvort, og hvernig, Iðunn hefur áhrif á vinnu hjúkrunarfræðinga. Tekin voru viðtöl við stjórnendur við innleiðingar og hjúkrunarfræðinga sem hafa unnið með Iðunni í sínu starfi.
Minni tími í skráningar
Hjúkrunarfræðingarnir sem rætt var við áætluðu að 50-75% af vinnu þeirra væri gerð fyrir framan tölvu, og þar færi stærsti hluti í skráningar, þá sérstaklega verk sem aðrir starfsmenn hefðu innt af höndum.
Öll þau sem Henný ræddi við voru á sama máli um að skráning með Iðunni bæti heildarskráningu umtalsvert. Einnig kom fram að starfsfólk nýtir Iðunni til að lesa sér til um stöðu íbúa fyrir vakt, þar sem góð yfirsýn fæst yfir framvindunótur síðustu daga og þeir geta flett upp stöðu á verkþáttum hvers íbúa. Aðrir möguleikar innan appsins, eins og flýtihnappar til að hringja í aðstandendur og getan til að senda sáramynd beint í sögukerfið í gegnum smáforritið, voru einnig metin tímasparandi við starfsemi á umræddum hjúkrunarheimilunum.
Um leið og skráning hefur aukist hefur létt á skráningarálagi hjúkrunarfræðinga, þar sem skráning hefur færst í fleiri hendur. Tími hjúkrunarfræðinga getur því í auknum mæli nýst við hjúkrun og aðhlynningu íbúa í stað tölvuvinnu. Viðmælendum fannst erfitt að áætla hversu mikill tími hefur sparast en öll fundu þau greinilegan mun á þeim tíma sem varið var við tölvu.
Útreiknaður tímasparnaður
Tökum sem dæmi 100 íbúa hjúkrunarheimili með sjö starfandi hjúkrunarfræðinga dreifða á vaktir yfir sólarhringinn. Ef hver hjúkrunarfræðingur á morgun- og kvöldvakt hringir tvö símtöl í aðstandendur, tekur eina mynd af legusári, og vegna aukinnar skráningar mætti fella niður eitt rapport eða stytta tvö þeirra um samtals hálftíma, má áætla að tímasparnaðurinn sé 22 klukkustundir á mánuði við það að innleiða Iðunni.

Annað dæmi um sparnað á skráningartíma hjúkrunarfræðinga mætti stilla svona upp:
Miðum við að hægt sé að stytta skráningartíma um helming miðað við þann tíma sem rannsóknarniðurstöður hafa sýnt og að skráning endi í 35% af vaktinni, þá sparast samtals 270 klukkustundir við skráningu hjá hjúkrunarfræðingum á mánuði. Það eru 17% af unnum klukkutímum hjúkrunarfræðinga á mánuði.
Aukið öryggi og samfella í þjónustu
Tímasparnaður og bætt skráning leiða til aukinna gæða í þjónustu og starfsfólk sem rætt var við og notaði Iðunni á hjúkrunarheimilum voru sammála því að með bættri skráningu fælust aukin gæði í þjónustunni og meiri samfella í umönnun. Starfsfólk græddi meiri tíma með íbúum og taldi sig geta haft betri tækifæri til að bregðast fyrr við frávikum.
Við þökkum Henný kærlega fyrir samantektina.

Höfundur bloggs
Elfa Ólafsdóttir
Markaðsstjóri Helix
Deildu gleðinni