
21/05/2025
Blogg
Ný lausn einfaldar vinnu við endurhæfingu
Helix vinnur nú að þróun á nýrri sérlausn fyrir endurhæfingarstarfsemi í heilbrigðiskerfinu í samstarfi við Reykjalund.
Nýja lausnin verður tengd við Sögu sjúkraskrá og með henni geta sjúkraþjálfarar og annað starfsfólk skráð niðurstöður prófa og æfinga í endurhæfingarstarfsemi Reykjalundar í rauntíma. Skjólstæðingar geta fengið niðurstöður sendar í Heilsuveru sem eru bæði sýnilegar þeim og öðrum starfsmönnum heilbrigðisstofnana og eykur þetta upplýsingaflæði og yfirsýn fyrir skjólstæðinga og stofnanir. Reykjalundur hefur náð markverðum árangri við að færa utanumhald á skráningu upplýsinga um sjúklinga og meðferðir á rafrænt form með notkun á Sögu (sjá nánar).
Við höfum gjörbylt skráningu á Reykjalundi á síðustu árum. Markmiðið er að skapa bætta yfirsýn fyrir starfsfólk yfir meðferðir sjúklinga þvert á deildir. Þessi nýja lausn er hluti af þeirri stafrænu vegferð og mun auka yfirsýn og spara tíma, sérstaklega fyrir sjúkraþjálfarana okkar, en eykur einnig þátttöku skjólstæðinga í eigin meðferð.
Ólöf Árnadóttir
Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Reykjalundi
Um er að ræða nýja sérlausn sem stendur til hliðar við Sögu og mun nýta og skrá niður upplýsingar í Sögu í rauntíma líkt og aðrar sambærilegar lausnir Helix á borð við Lyfjavaka og Iðunni.
Markmiðið sé að þróa lausn fyrir endurhæfingarstarfsemi á Íslandi sem nýtist sérhæfðum endurhæfingarstofnunum sem og öðrum stofnunum sem halda utan um skráningu á endurhæfingu sbr. t.d. hjúkrunarheimili og dagvistir, eða hvar sem æfingar tengdar endurhæfingu fara fram.
Reykjalundur er lykilaðili í endurhæfingu á Íslandi og við höfum átt í mjög nánu og farsælu samstarfi við þau. Það hefur verið magnað að fylgjast með Reykjalundi umbylta sinni skráningu og starfsemi síðastliðin ár. Þetta samstarf er okkur mjög mikilvægt, sérstaklega þegar kemur að þróun á lausnum sem þessum.
Arna Harðardóttir
framkvæmdastjóri Helix
Deildu gleðinni