alt missing

20/06/2024

Blogg

Iðunn getur skilað 660 milljón króna ábata fyrir íslensk hjúkrunarheimili

Iðunn smáforrit fyrir hjúkrunarheimili getur skilað ríflega hálfum milljarð króna ábata á ári, eru niðurstöður greiningar sem Anna Björk Baldvinsdóttir vann í BS verkefni sínu Kostnaðarábatagreining við innleiðingu Iðunnar á landsvísu.  

Skráning meðferðar lögbundin  

Mönnunarvandi og aukið skráningarálag hjúkrunarfræðinga eru meðal þeirra áskorana sem hjúkrunarheimili standa frammi fyrir í dag. Hjúkrunarfræðingar á hjúkrunarheimilum eyða ríflega helmingi vaktar sinnar í tölvuvinnu, að megninu til við skráningu á meðferð íbúa. Þegar rafræn sjúkraskrá var tekin upp á Íslandi varð aukin áhersla sett á skráningar og skráningarskylda formlega sett í lög. Ef verkþáttur er ekki skráður á að gera ráð fyrir því að hann hafi ekki verið framkvæmdur. Það er því mikilvægt að hámarka nýtingu vinnuafls, meðal annars með því að hafa upplýsingamiðlun skilvirka. Smáforritið Iðunn var þróað af Helix til að létta undir skráningarálagi hjúkrunarfræðinga. Það er gert með því að færa skráningu í hendur fleira starfsfólks.  

Anna Björk Baldvinsdóttir skilaði á dögunum BA ritgerð sinni í Hagfræði við Háskóla Íslands þar sem hún tók fyrir ábata af innleiðingu Iðunnar á hjúkrunarheimilum. Niðurstöðurnar voru afgerandi, hagnaður af því að innleiða snjalllausnina fyrir hjúkrunarheimili var talsverður.

Kostnaðarábatagreining á lausninni sýndi að nettó ábati Iðunnar var 663.624.945 krónur árlega eftir innleiðingu ef hún yrði innleidd á öll hjúkrunarrými landsins. 

Léttir undir faglærðu starfsfólki 

Iðunn er heilbrigðislausn í síma sem heldur utan um framkvæmd verka, fyrirmæli, tékklista, upplýsingar um íbúa og gerir starfsfólki kleift að skrá upplýsingar á einfaldan hátt í rauntíma. Á hjúkrunarheimilum er skráning meðferðar í sjúkraskrá á ábyrgð hjúkrunarfræðinga, en með Iðunni smáforriti getur ófaglært starfsfólk skráð inn verkþætti sem vistast beint í Sögu þar sem hjúkrunarfræðingur hefur yfirsýn yfir meðferð íbúa. Þetta sparar mikla vinnu fyrir hjúkrunarfræðinga sem þegar eyða að eigin mati 50-75% vakta fyrir framan tölvu, þar af stórum hluta við að færa inn upplýsingar frá ófaglærðu starfsfólki. Miðað við þann tíma sem rannsóknir gefa til kynna að geta sparast getur þetta hlutfall farið niður í 35% með notkun á Iðunni (Henný Björk Birgisdóttir, 2024). 

Tímasparnaður við fjölda verka 

Til að meta ábatann af innleiðingu Iðunnar framkvæmdi Anna kostnaðarábatagreiningu ásamt næmnigreiningu á innleiðingunni. Ábatinn var metinn út frá mælingum og áætlunum á tíma fjögurra verkþátta með og án Iðunnar, uppflettingu meðferðarsviðs, uppfletting og framkvæmd símtals til aðstandenda, tímasparnað við upplýsingafundi og sáramyndatökur. Honum var síðan umbreytt í peningalegt virði út frá launum þess sem framkvæmdi verkið. 

Áætlaður tímasparnaður við upplýsingafundi samkvæmt deildarstjórum hjúkrunarheimila sem þegar hafa innleitt Iðunni var 30 mínútur fyrir 7-9 manns. Tímataka fyrir uppflettingu meðferðastigs sýndi að hún tók að jafnaði 1 mínútu og 34 sekúndur án Iðunnar en einungis 10 sekúndur með Iðunni. Tímataka á uppflettingu símanúmers og framkvæmd símtals án Iðunnar var 1 mínúta og 58 sekúndur en 20 sekúndur með Iðunni. Tími sem fór í myndatökur á sárum mældist u.þ.b. 6 mínútur án Iðunnar en 20 sekúndur með Iðunni. 

Ábatinn virði hundruða milljóna 

Samkvæmt rannsókn Önnu yrði árlegur ábati af tímasparnaði við framkvæmd þessa verka 691.547.362 krónur ef Iðunn yrði innleidd í öllum hjúkrunarrýmum landsins, áður en tekið er tillit til kostnaðar. Fyrir 100 manna hjúkrunarheimili væri það ábati upp á 24.446.708 krónur árlega.  

Áhrif á lengd upplýsingafunda og lengd innleiðingatíma, og þar með kostnaður, eru stórir þættir í rannsókninni sem erfiðara er að mæla. Næmnigreiningar sýna þó að þegar áætlað er út frá verstu tilfellum fyrir breyturnar nemur nettó ábati á fyrsta ári að lágmarki 235.941.650 krónum og þegar skoðað er út frá bestu tilfellum nemur hann 1.184.181.637 krónum. Árlegur nettó ábati eftir upphafskostnað væri þá í versta falli 273.785.683 krónur og í besta falli 1.140.439.383 krónur.  

Það er óhætt að fullyrða með þessum afgerandi niðurstöðum greiningarinnar að fjárfesting í nýsköpun og tæknilausnum í heilbrigðiskerfinu getur skilað sér margfalt til baka.  

Deildu gleðinni